Skip to main content

Starfsendurhæfing Austurlands (StarfA)

Starfsendurhæfing Austurlands er sjálfseignarstofnun, stofnuð 14. nóvember 2007 af 18 stofnaðilum á Austurlandi. AFLi starfsgreinafélagi, Framhaldsskólanum í Austur- Skaftafellssýslu, Heilbrigðisstofnun Austurlands, Heilbrigðisstofnun Suðausturlands, Menntaskólanum á Egilsstöðum, Samtökum sveitafélaga á Austurlandi, Verkmenntaskóla Austurlands, Verslunarmannafélagi Austurlands, Vinnumálastofnun Austurlands, Þekkingarneti Austurlands, Þróunarfélagi Austurlands, Stapa - lífeyrissjóði, og sveitarfélögunum Djúpavogshreppi, Fjarðabyggð, Fljótdalshéraði, Hornafirði, Seyðisfjarðarkaupstað og Vopnafjarðarhreppi.

Markmiðið var að tryggja öllum þeim sem þurfa á starfsendurhæfingu að halda þjónustu, þar sem auknar líkur eru á atvinnuþátttöku ef skipulögð starfsendurhæfing er fyrir hendi í samfélaginu.

 

Hlutverk StarfA

Hlutverk StarfA er að veita einstaklingum með heilsubrest, sem standa utan vinnumarkaðar og eru að leita sér leiða inn á hann aftur, starfsendurhæfingu. Einnig að veita einstaklingum sem eru hugsanlega á leið í nám eða hlutastarf á atvinnumarkaði þjónustu er lýtur fyrst og fremst að því að rjúfa einangrun og koma skipulagi á daglegt líf sitt í formi félagslegrar samveru og virkni.

Markmið StarfA er að þátttakendur fari í atvinnu að endurhæfingu lokinni og/eða í áframhaldandi nám til þess að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði.

Stefnan hjá StarfA er að:

  • Bjóða upp á snemmtæka íhlutun og einstaklingsmiðaða þjónustu í hóp.
  • Stuðla að fjölbreyttu framboði úrræða og leiða til að efla þátttöku á vinnumarkaði. 
  • Stuðla að heildrænni endurhæfingu þar sem unnið er með líkamlega og andlega heilsu og umhverfið.
  • Þátttakendur taki ábyrgð á eigin velferð.
  • Auka þátttöku, virkni og lífsgæði þátttakenda og fjölskyldna þeirra.
  • Nýta styrkleikana og mannauðinn í nærsamfélaginu.

Tilvísanir- þátttaka

Tilvísanir berast til Virk Starfsendurhæfingarsjóðs. Læknir vottar að heilsubrestur sé til staðar og vísar viðkomandi einstaklingi til ráðgjafa Virk . Hjá Virk ráðgjafa fer fram frumgreining á endurhæfingarþörf og sótt er um úrræði hjá StarfA, þar sem endurhæfing fer fram. Félagsþjónusta sveitafélaga,Vinnumálastofnun og aðrar stofnanir geta einnig vísað einstaklingum til StarfA gegn greiðslu fyrir þjónustuna.

 

Heildstæð endurhæfing- fjölbreytt dagskrá

Endurhæfingin samanstendur af fjölbreyttri heilsueflingu, inni sem úti, einka-og hópþjálfun og fræðslu um heilbrigðan lífsstíl, hreyfingu, næringu og svefn. Vinnusmiðjan er fastur liður þar sem þátttakendur gleyma stað og stund í skemmtilegum félagsskap við iðju sem gefur lífinu gildi og eykur trú á eigin getu og færni. Við eldum og borðum reglulega saman og bökum eitthvað heilsusamlegt. Sjálfsefling sem tekur mið af þörf hópsins hverju sinni s.s. að að efla sjálfsöryggi, auka færni í samskiptum, auka frumkvæði og framtakssemi, ásamt streitu og streitustjórn. Verkjaskólinn – hamingjan er hér - að njóta lífsins þrátt fyrir verkina í samstarfi við Heilbrigðisstofnun Austurlands. Virkni og Kraftur í samstarfi við Austurbrú. Boðið er upp á margvísleg námskeið svo sem Skipulagt kaos, Smiler hugmyndafræðina, fjármálanámskeið, meðvirkni, fordómar, áfallastreitu og hugræna atferlismeðferð. Þekkingarmiðlun var með námskeið í að efla seiglu og takast á við mótlæti. Einnig er unnið með slökun og gjörhygli ásamt hópefli þar sem unnið er með traust, líðan í hópnum og að takast á við nýjar áskoranir, stíga út úr þægindarammanum og gera eitthvað skemmtilegt. Í vetur höfum við meðal annars kynnt okkur bogfimi og farið á hestbak og margt spennandi er á döfinni. Meðal annars útivistarhópur þar sem ætlunin er að fara í stuttar gönguferðir og skoða perlur í nágrenninu.

Jafningjafræðslan er einnig mikilvæg og gefandi þar sem fyrrverandi þátttakendur StarfA koma í heimsókn og segja frá hvernig gangi að fóta sig á atvinnumarkaði og hvaða bjargir hafi gagnast þeim eftir að starfsendurhæfingu lauk.

Atvinnutenging

Eftir að grunnuppbyggingu lýkur og stundum samhliða tekur atvinnutenging við. Þar sem þátttakandi fær tækifæri á vinnuprófun og starfsþjálfun, möguleika á vinnusamningi og launuðu starfi. Markmið og tilgangur starfsþjálfunar á vinnustað er meðal annars að efla vinnufærni, meta starfsgetu, að þátttakandi fái tækifæri til að prófa nýjan starfsvettvang eftir áhugasviði og starfsgetu. Eftirfylgni á vinnustað er mjög mikilvæg þar sem þátttakandi hefur möguleika á að fá iðjuþjálfa á vinnustað m.t.t. aðlögunar á vinnuaðstæðum með þarfir þátttakandans í huga og kennslu í líkamsbeitingu. Sjálfseflingin er atvinnumiðuð og farið er í Vinnuvistfræðina – líkamsbeitingu og vinnuvernd, félagslega og andlega þætti á vinnustað.

Þátttakendur geta hætt í endurhæfingu og hafið störf á vinnumarkaði hvenær sem þeir eru tilbúnir til og tækifæri gefast.

skapa jákvætt, glaðlegt og hvetjandi viðmót

StarfAleggur áherslu á hvatninguog samvinnu.skapa hlýlegt, glaðlegt og hvetjandi viðmót. efla einstaklinga til þátttöku og ábyrgðar á eigin starfsendurhæfingaráætlun.

Lögð er áhersla á notkun hópmeðferðar en þar eru tækifæri til lærdóms og samskipta,

að vera hluti af heild/tilheyra, koma að gagni og vera mikilvægur. Upplifa gleði og ánægju.

StarfA sækir hugmyndafræðilegan bakgrunn sinn í líkanið um iðju mannsins. Um eflingu iðju. Hugmyndafræði valdeflingar og batahvetjandi þjónustu.

Grunnhugsunin er að fá fólk nái tökum og stjórn á eigin lífi, eflist og finni að það geti haft áhrif á líðan sína og þá þjónustu sem það fær.

Byggir á sjálfsákvörðunartöku og sjálfstjórn. Hlutverk þjónustuaðila er að veita notanda bjargir til að taka ábyrgð á eigin lífi og veita faglega aðstoð. Samband þarf að byggja á trausti, einlægni og heiðarleika.

Útvíkkun starfseminnar- framtíðin.

Það er erfitt fyrir lítil félög á landsbyggðinni að halda uppi þjónustu hvert um sig og styrkur fyrir félagsmenn að sameina krafta sína í sameiginlegri þjónustu og aðstöðu, einskonar endurhæfingar- stuðningsmiðstöð. Það er hugmynd StarfA að tryggja reglulegt framboð heilsutengdra þjónustuúrræða fyrir breiðan hóp einstaklinga í nærsamfélaginu- í heimabyggð í þeim tilgangi að efla heilsu og vellíðan einstaklingsins. Auka lífsgæði allra. Einstaklingar með gigt þurfa ákveðna þjónustu og eins einstaklingar sem glíma við krabbamein og afleiðingar þess.Með gerð þjónustusamninga við félagasamtök, á borð við Krabbameinsfélag Austurlands eru fólgin mikil samlegðaráhrif – þjónustan byggir að mestu á sama grunni, heildstæðri endurhæfingu, samveru, stuðningi, virkni og með sérhæfingu á hverju sviði fyrir sig.

Hjá StarfA er frábært starfsfólk sem tekur vel á móti fólki, leiðbeinir og hvetur það í að ná betri stjórn á eigin lífi, heilsu og vellíðan.

Góðir stuðningsaðilar hafa styrkt starfsemina svo um munar eins og Eskja hf um afnot af húsnæði á Reyðarfirði og Eskifirði og Félagsþjónusta Fljótsdalshéraðs með samningi um samnýtingu húsnæðis á Egilsstöðum.

StarfA er samfélagsverkefni sem hefur samfélags-og þjóðfélagslegan ávinning. Þessi þjónusta gerir gott þjónustusamfélag enn vænlegra til búsetu.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar á heimasíðu StarfA www.StarfA.is og á Facebook undir Starfsendurhæfing Austurlands og starfsmenn StarfA koma mjög gjarnan með kynningar í fyrirtæki og stofnanir sé eftir því óskað.

Vertu velkomin til StarfA!

Linda Pehrsson

Framkvæmdastjóri