Skip to main content

Jón Kristinn Arngrímsson - reynslusaga

Það gerði þetta enginn fyrir mig , ég fékk tækifærið og verkfærin og nýtti mér þau til að ná betri líðan.“

Jón Kristinn Arngrímsson segir hér frá kynnum sínum af Starfsendurhæfingu Austurlands og hvernig þau hafa hjálpað honum.

„Ég heit Jón Kristinn Arngrímsson og er búsettur á Reyðarfirði. Er í sambúð og á 6 börn. Hef átt við þunglyndi og kvíða að etja lengi og datt út af vinnumarkaði af þeim sökum. Hef þurft á þjónustu geðdeildar að halda þrisvar sinnum. Yngsta barnið hefur einnig átt við langvinn veikindi að stríða og meðal annars fengið mörg flog á stuttum tíma.“

 

Datt út af vinnumarkaði vegna þunglyndis og kvíða.

„Ég kom fyrst í kynni við Starfsendurhæfingu Austurlands ( StarfA) haustið 2011. Mér bauðst að taka þátt í námskeiðinu sterkari starfsmaður sem kennt var hjá Austurbrú. Þá var ég aðallega að hugsa um að brúa bilið þar til ég færi til vinnu aftir, hafði þá nýverið misst vinnuna. Fór í vinnu á ný 2012 í nokkra mánuði en var í hálfgerðu móki, missti minnið spurði sömu spurninga sí og æ var mér sagt síðar af fyrrverandi samstarfsmanni. Ég var frá vinnu dag og dag og að lokum fluttur með sjúkraflugi á bráðamóttöku í desember 2012.“

 

Viðurkenndi fyrir sjálfum mér að ég væri veikur og þá fóru hlutirnir að gerast

„Ég hafði fengið vægt taugaáfall vegna mikillar kvíðauppsöfnunar. Fór ekki aftur til vinnu. Hitti geðlækni og þá fyrst viðurkenndi ég fyrir sjálfum mér í desember 2012 að ég væri veikur. Áttaði mig á því að maður kaupir ekki heilsuna úti í búð og að maður á bara eitt líf. Þá varð einhver vitundarvakning og ég tók þá ákvörðun að nýta mér öll þau verkfæri sem mér stæðu til boða til að ná heilsu á ný. Þá fóru hlutirnir að gerast. Send var beiðni til Virk Starfsendurhæfingasjóðs í desember 2012 og var haft samband í byrjun janúar 2013. Þá hófst markviss endurhæfing hjá Starfsendurhæfingu Austurlands í Fjarðarbyggð, Reyðarfirði . Sú áætlun innihélt sjúkraþjálfun, sálfræðiþjónustu, heilsueflingu, vinnusmiðju, hópefli, sjálfseflingu/ fræðslu og námskeið.“

 

Hreyfingin hjálpaði mest

„Hreyfingin hjálpaði mér mest og ég finn fyrir því í dag ef ég hreyfi mig ekki reglulega. Eftir starfsendurhæfinguna þá fer ég aldei eins langt niður og áður því nú hef ég verkfærin /hjálpargögn sem nýtast mér til að komast á rétta braut og upp úr lægðinni. Hugræn atferlismeðferð/HAM, jákvæðni og ýmis sjálfstyrking hjálpar mér að takast á við daginn. Ég tek bara einn dag í einu, er farinn að hugsa í lausnum en ekki búa til vandamál. Þú breytir ekki öðrum en getur breytt sjálfum þér.“

„Það gerði þetta enginn fyrir mig , ég fékk tækifærið og verkfærin og nýtti mér þau til að ná betri líðan. Það voru margir samverkandi þættir sem höfðu áhrif á að ég náði árangri og líður vel í dag. Félasskapurinn í StarfA hjálpaði mikið, ég er mikil félagsvera. Þar fór ég að geta opnað mig og það styrkti mig að segja frá mínum veikindum og geta verið ég sjálfur en ekki með einhverja grímu eða leika eitthvert hlutverk. Ég ólst upp við frasa eins og að bíta á jaxlinn og að öll él styttir upp um síðir og var ekki vanur að tjá líðan mína. Hjá StarfA öðlaðist ég nýtt hlutverk, tók ábyrgð sem gerði það einnig að verkum að ég fékk oft hrós, sem styrkti mig og gerði mér gott.“

 

Hlakka til að fara í vinnuna á hverjum degi

„Sumarið 2013 fór ég á Reykjalund í endurhæfingu á geðsvið. Þegar ég var þar var ég svo lánsamur að spurt var eftir mér og mér boðin vinna, lítið starfshlutfall. Það hafði frést að ég hefði gaman af eldamennsku. Ég fór í vinnuprufu eftir að ég kom heim í 4 daga í mötuneyti í leikskólanum Dalborg á Eskifirði. Það gekk vel og mér var boðið hlutastarf og er nú kominn í 100% starf. Ég hlakka til að fara í vinnuna á hverjum degi. Þar hef ég mætt miklum skilningi og þar er komið til móts við mig. Ég hef gaman af því að gefa af mér í vinnunni. Það gefur mér mikið, að hafa frumkvæði, sem dæmi skrifaði ég skilaboðin: Jákvæðni er smitandi – neikvæðni er bráðsmitandi á töfluna á kaffistofunni um daginn, færði samstarfskonum blóm á konudaginn og kom með þá hugmynd að kjósa starfsmann mánaðarins. Nú geri ég allt til að geta lifað lífinu og það skiptir mig mestu máli að vera í vinnu sem ég er ánægður í og halda heilsu. Tek það fram yfir tekjurnar því viðhorfið hefur breyst. Bauð mig meðal annars fram til sveitastjórnarkosninga . Að lokum þá hefur konan sagt að ég sé allur annar maður eftir að ég fór að vinna í sjálfum mér, það hefur haft áhrif á alla fjölskylduna.“

Ég þakka fyrir mig

Jón Kristinn Arngrímsson